Verðlaunaðir á frímerkjasýningu í Kína

Morgunblaðið 30. júlí 2019

Verðlaunaðir á frímerkjasýningu

• Þrír Íslendingar sýndu í Kína

Frímerkjasafnari Sigtryggur Rósmar Eyþórsson fékk gullverðlaun í Kína.
Frímerkjasafnari Sigtryggur Rósmar Eyþórsson fékk gullverðlaun í Kína.
 
Heimssýning frímerkja, World Stamp Exhibition, var haldin í Kína á dögunum. Þrír Íslendingar tóku þátt í sýningunni að þessu sinni og fengu þeir allir verðlaun fyrir söfn sín.

Sigtryggur Rósmar Eyþórsson fékk gullverðlaun og sérverðlaun til viðbótar en hann sýndi safn íslenskra bréfspjalda frá 1879 til 1920. Hjalti Jóhannesson sýndi íslenska kórónustimpla og fékk fyrir það stórt silfur, eins og það var kallað á sýningunni, og loks fékk Vilhjálmur Sigurðsson bronsverðlaun en hann sýndi bók í tveimur bindum, Frímerki íslenska lýðveldisins I frá 1944 til 1999 og Frímerki íslenska lýðveldisins II frá 2000 til 2014.

Sýningin var haldin í borginni Wuhan, sem er höfuðborg Hubei-héraðs Mið-Kína, á milli Yangtze- og Han-ánna, og er viðskiptamiðstöð með um 11 milljónir íbúa. Sýningin var haldin sem liður í að minnast 70 ára afmælis Alþýðulýðveldisins Kína. Annar tilgangur hennar var að stuðla að vinsamlegum samskiptum og nánu samstarfi stofnunarinnar og frímerkjasafnara um allan heim.

Sýningin var skipulögð af Ríkispóststofu Alþýðulýðveldisins Kína og flutningadeild Hubei-héraðs sá um framkvæmd hennar. Þetta var þriðja heimssýning frímerkjasafnara sem haldin er í Kína. Hinar tvær voru haldnar 1999 í tilefni af 50 ára afmæli Kínverska alþýðuveldisins og árið 2009 á 60 ára afmæli þess. Íslendingar tóku þátt í báðum þeim sýningum með góðum árangri.

Á næsta ári verður heimssýning frímerkjasafnara haldin í London.