Söguágrip LÍF

Ágrip af sögu LÍF

- úr sýningarskrá NORDIU 2018 -

Á sjöunda tug síðustu aldar bar Sigurður H. Þorsteinsson, SHÞ, nokkrum sinnum fram á fundum Félags frímerkjasafnara, FF, tillögur um að félagið sækti um aðild að Alþjóðasamtökum frímerkjasafnara, FIP. Tillögum þessum var hafnað, en þær urðu til, að FF gerðist aðili að brezku safnarasamtökunum, BPA. Þá leitaði SHÞ annarra leiða fyrir aðild Íslands að FIP. Þetta varð með stofnun Klúbbs Skandinavíusafnara, KS, 1966, en KS fékk inngöngu í FIP á þingi samtakanna haustið 1966 með fyrirheiti um, að fleiri íslenzk félög og landssamtök þeirra væru í burðarliðnum.

Undirbúningsstofnfundur Landssambands íslenzkra frímerkjasafnara, LÍF, var haldinn haustið 1967, en stofnþing LÍF var haldið þann 5. febrúar 1968 og er það formlegur stofndagur LÍF. Stofnaðilar voru 5 félög: Klúbbur Skandinavíusafnara, Reykjavík; Félag frímerkjasafnara Selfossi; Frímerkjaklúbbur Kennaraskóla Íslands, Reykjavík; Félag frímerkjasafnara Hafnarfirði og Garðabæ og Frímerkja­klúbbur Æskunnar. Samþykkt var að halda þing LÍF á að hausti og hafa jafnframt sýningu á frímerkjum íslenzkra og þýzkra ungmenna með þátttöku Sameinuðu Þjóðanna og Pósts og síma. Gekk þetta eftir og var þessi fyrsta sýning LÍF nefnd DIJEX 68. Sýnt var efni í 30 römmum, til helminga  frá Íslandi og Þýzkalandi. Þýzkir unglingar áttu helming efnis og unnu tvenn silfurverðlaun, en íslendingar fengu silfrað brons fyrir tvö söfn. Þeim sið var haldið um langt árabil, að frímerkjasýningar væru í tengslum við þing LÍF.

Haustið 1969 var félagafjöldi LÍF orðinn 506 í 6 klúbbum. Þá var haldin í Norræna húsinu í Reykjavík frímerkjasýningin Norden 1969 með sýningarefni frá Norður­löndunum 5 í tilefni samnorrænnar frímerkjaútgáfu Efnt var til þyrlupóstflugs til fjáröflunar. Frekari fjáraflanir voru ræddar.

Árið 1971 hvarf einn stofn­klúbbur LÍF af vettvangi, en inn voru komnir nýir klúbbar. Út var komið fyrsta tölublað tímarits LÍF. Við opnun sýningar við landsþing 1971 bryddaði póst- og símamálastjóri á möguleika á opnun póstminjasafns. Á sýningu vegna landsþings 1972. Þar voru sýnd söfn sem sýnd höfðu verið á alþjóðlegum frímerkjasýningum. Þar voru söfn úr eigu Rogers A. Swansons og Franks C. Mooney frá Bandaríkjunum og Folmers Østergårds frá Danmörku. Á starfsárinu voru 4 frímerkjasýningar innan LÍF. Reynt var, án árangurs, að fá FF til samstarfs við LÍF.

Smám saman efldist LÍF og munaði þar mikið um komu klúbbanna norðan heiða í samtökin. Félag frímerkjasafnara á Akureyri  var stofnað 19. apríl 1975 og Frímerkjaklúbburinn Askja á Húsavík 29. apríl 1976. Hafa þessir klúbbar verið hluti af kjölfestu í öllu starfi LÍF. Þessir klúbbar og Akka, félag safnara á Dalvík,  sameinuðust síðan þann 18. apríl 2015 í eitt félag, Félag frímerkjasafnara á Norðurlandi. Stærsta skrefið í eflingu samtakana var án  efa þegar Félag frímerkjasafnara í Reykjavík gekk í LÍF, en það var 12 júní 1977 á 10. Þingi LÍF. Það var töluverður aðdragandi að því að FF kæmi í samtökin. Líklega var sú samvinna sem var meðal okkar safnaranna  á Islandíu 73, sem var frímerkjasýning  haldin af póst- og símamálastjórninni  í tilefni 100 ára afmælis íslenzka frímerkisins, fyrsta skrefið.  Að þeirri sýningu komum við safnarnir með vinnuframlagi. Þar varð til hópur manna, sem allir hafa unnið að frímerkja­sýningum alveg til dagsins í dag, þótt ýmsir hafi því miður fallið frá, blessuð sé minning þeirra. Næsta skref var mjög sennilega samvinna LÍF og FF við útgáfu Grúsks, tímarits fyrir safnara. Fyrstu þrjú blöðin voru gefin út sameiginlega, en fljótlega eftir að FF gekk í LÍf varð það samtakanna  að halda utan um útgáfuna. Grúskið kom út til 1992 og voru gefin út 23 blöð.Það var töluvert áfall fyrir okkur þegar við hættum að gefa út Grúskið,það var ekki  fyrr  en árið 1999 sem  regluleg blaðaútgáfa hófst aftur. Hófst þá samstarf við Íslandspóst um útgáfu nýs  frímerkjablaðs, sem heitir einfaldlega FRÍMERKJABLAÐIÐ og stóð það samstarf með breyttum áherzlum til ársins 2018, en frá árinu 2006 var LÍF útgefandi blaðsins með mikilvægum stuðningi Íslandspósts ohf. Sá samstarfssamningur rann út í árslok 2018.

Fleiri klúbbar hafa komið til liðs við samtökin, en þrotið örendið og lagt upp laupana síðar. Ekki er á neinn hallað þótt sérstaklega sé getið Félags mótívsafnara, sem starfaði af myndarskap um nokkurt árabil og gaf m.a. út fjölritað klúbbblað, sem eftirsjá er að. Einnig má nefna, að um miðjan níunda áratug síðustu aldar festi LÍF kaup á húsnæði að Síðumúla 17, en þar hefir meginhluti félagsstarfs safnara í Reykjavík og nágrenni farið fram síðan, en hætt er við, að minna hefði farið fyrir slíku starfi ef húsnæðisins hefði ekki notið við. Auk frímerkjasafnara hafa Myntsafnarar nýtt húsnæðið og um tíma var einnig starfandi þar félag póstkortasafnara, Kortakarlarnir.

Það hefir skipt okkur miklu máli er að hafa frímerkjasýningu árlega í sambandi við landsþing LÍF og tókst það vel framan af. Nefna má sýningarnar Frímerki 74, frímerki 75, Eyfrím 76, Frímex 77, Hafnex 78, Frímerki 79, Frímþing 80, og þannig mætti áfram telja. Það sem hefur ef til vill verið mikilvægast fyrir framþróun okkar í frímerkjafræðunum er samstarfið  við norræna vini okkar um Nordíu sýningarnar til skiptis á Norðurlöndunum. Það samstarf hefir staðið í 40 ár , sem segir að allan þann tíma höfum við verið að mennta okkur með að sýna, dæma og heimsækja þessar sýningar, fyrir utan að halda sjö  Nordíur og tvær norrænar unglingasýningar. Þetta greinarkorn var ekki ætlað til að gera sögu LÍF full skil, heldur aðeins að stikla á stóru í tilefni  50 ára afmælis LÍF 2019. Það er þó til full ástæða að gera sögunni mun betri skil, meðan heimildir eru aðgengilegar, hvort heldur er í kolli þeirra, sem söguna lifðu, ellegar á öðrum vettvangi.

 

Sigurður R. Pétursson

Gunnar Rafn Einarsson